Deila um smámyntarveiðar í gosbrunni í Róm
Roberto Cercelletta að störfum í Trevi gosbrunninum. AP
Rómverji nokkur, sem virt hefur að vettugi ný lög sem banna að smápeningar séu veiddir upp úr Trevi gosbrunninum í Róm, var handtekinn í dag með fullan poka af smámynt. Að sögn ítalskra fjölmiðla vó pokinn 22 kg. Maðurinn, sem segist vera atvinnuleysingi að atvinnu, var fluttur á lögreglustöð og ákærður fyrir þjófnað og að veita mótspyrnu við handtöku. Þjóðsagan segir að þeir sem heimsækja Róm verði að henda smámynt í gosbrunninn vilji þeir koma aftur til borgarinnar. Maðurinn heitir Roberto Cercelletta og er fimmtugur að aldri. Hann stærði sig nýlega af því að hann lifði á að veiða þessa peninga upp úr brunninum og hefði af því dágóðar tekjur. En í síðustu viku var sett reglugerð sem bannaði þessa iðju. Byggist reglugerðin m.a. á dómi hæstaréttar Ítalíu frá því árið 1994 um að ekki sé ólöglegt að veiða mynt upp úr gosbrunnum en hins vegar sé það andstætt lögum að vaða út í gosbrunna í Róm. Góðgerðarsamtökin Caritas fá alla þá mynt sem borgarstarfsmenn veiða upp úr gosbrunninum. Cercelletta, sem stundum er kallaður D'Artagnan af borgarbúum, hefur mótmælt reglugerðinni harðlega að undanförnu og haft uppi ýmsar aðgerðir, svo sem að skera sig til blóðs með rakvélarblaði. Hann hefur dregið í efa að peningarnir sem borgin lætur sækja í brunninn fari í raun til góðgerðarmála.
Nessun commento:
Posta un commento